Lög um menningarminjar nr.80/2012 tóku gildi 1. janúar 2013 en þá var Húsafriðun og Fornleifavernd sameinuð í eina stofnun, Minjastofnun Íslands. Nýju lögin leystu af hólmi Þjóðminjalög frá 2001 og lög um húsafriðun frá 2001. Öll hús sem áður fylltu flokkinn friðuð hús eru nú friðlýst hús. Þar með eru talin öll hús sem voru sérstaklega friðuð af ráðherra eða sveitarstjórnum og þau hús sem höfðu verið aldursfriðuð þ.e. öll hús byggð fyrir 1850 og allar kirkjur byggðar fyrir 1918. Á landinu öllu eru nú tæplega 500 byggingar friðlýstar en af þeim eru 211 friðlýstar kirkjur.

Samkvæmt lögum um menningarminjar skal Minjastofnun Íslands halda skrár yfir þekktar fornleifar og friðuð og friðlýst hús og mannvirki á landinu. Skal stofnunin birta skrár og hafa þær aðgengilegar á miðlægum gagnagrunni. Birting þessara upplýsinga hér er því liður í því að sinna þessu hlutverki.