Neskirkja (Norðfjarðarkirkja)

Heiti

Neskirkja (Norðfjarðarkirkja)

Heimilisfang

Egilsbraut 15

Póstnúmer

740 - Neskaupstað

Landshluti

Austurland

Byggingarár

1896 - 1897

Hönnuðir

Vigfús Kjartansson

Dagsetning friðunar

1990-01-01

Lagatilvísun

Þjóðminjalög nr. 88/1989

Friðun nær til

Aldursákvæði

Friðunartexti

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Byggingarefni

Timbur, bindingur

Safn

Þetta hús tilheyrir ekki safni.

Lýsing

Athugasemd: Kirkjan er byggð upp úr Skorrastaðakirkju sem smíðuð var 1886 og fauk í ofsaveðri 1896.

Breytingar:

Kór smíðaður við kirkjuna 1944.

Kór færður 1992 og kirkjan lengd og útbygging smíðuð við norðurhlið. Hönnuðir: Stefán Örn Stefánsson og Grétar Markússon arkitektar.

Norðfjarðarkirkja (Neskirkja) er timburhús, 14,68 m að lengd og 7,74 m á breidd, með kór við austurstafn, 3,76 m að lengd og 4,82 m á breidd, og söngstúku við norðurhlið tengda safnaðarheimili, 4,07 m að lengd og 5,83 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með íbjúgu píramítaþaki. Klukkuskífa er á framhlið turns en hljómop með hlera á hvorri hlið. Kirkjan er klædd lóðréttri plægðri borðaklæðningu en þök bárujárni og stendur á steinsteyptum sökkli. Á suðurhlið kirkju eru fjórir smárúðóttir bogadregnir gluggar, tveir á norðurhlið, tveir minni á hvorri hlið kórs, einn hvorum megin dyra og einn yfir þeim. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir og dyr á austurhlið söngstúku.

Forkirkja er stúkuð af framkirkju með þverþili. Í henni sunnan megin er stigi upp á setuloft með þverum framgafli yfir forkirkju og fremsta hluta framkirkju og setsvala inn með hliðum. Norðan megin í forkirkju eru dyr að tengibyggingu milli kirkju og safnaðarheimilis. Að framkirkju eru vængjahurðir og gangur inn af þeim og bekkir hvorum megin gangs. Kórútbyggingin er hafin yfir kirkjugólf um eitt þrep. Innst í framkirkju norðan megin er útbyggð söngstúka fyrir orgel og söngflokk. Veggir eru klæddir lóðréttum panelborðum. Yfir framkirkju og kór eru panelklæddar hvelfingar.

Heimild:

ÞÍ. Bps. C, V. 41. Bréf 1898. Byggingarreikningur hinnar nýju safnaðarkirkju að Nesi í Norðfirði, ásamt fylgiskjölum.


Hnit

749015 X, 526938 Y

Gögn